Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

Labi Siffre

Þankar dagsins:

Samhliða því sem óskir þínir rætast, glatast draumar þínir.

-Höfundur óþekktur.

—–

Tónlist dagsins:

A Little More Line með Labi Siffre.

(Mig minnir að ég hafi áður sett þetta lag inn hér. Þetta var uppáhaldslagið mitt árið 1970, hét þá Give Me Just a Little More Line með hljómsveitinni Moonshine, sem samanstóð af Clodagh Rodgers (sem tók ári síðar þátt í Eurovision með lagið Jack in the Box, sem Svanhildur útlagði á íslensku sem “Þú ert minn súkkulaðiís…”) og Bandaríkjamanninum Kenny Young, sem komst í mikið uppáhald hjá mér nokkrum árum síðar, í kringum 1975, sem lagasmiður og söngvari popphljómsveitarinnar Fox, sem gaf út makalaust góða fyrri plötu og vonda seinni plötu. Platan Night Games, samin og produseruð af Young og flutt af Clodagh, var í miklu uppáhaldi hjá mér um 1970. Og ég hélt alltaf að Kenny Young hefði samið Give Me Just a Little More Line, en komst að hinu sanna nýlega, að Labi Siffre væri höfundurinn. Siffre er annars flinkur og merkilegur breskur blökkumaður, sem hefur verið ófeiminn við gagnrýni á rasisma í textum sínum - mjög pólitískur. Hann mun einnig hafa verið einn af fyrstu samkynhneigðu svörtu tónlistarmönnunum sem kom fram með kynhneigð sína opinberlega á Bretlandseyjum. Annars er hann líklega frægastur fyrir að vera höfundur It Must Be Love, sem Madnesss gerðu frægt hér um árið. Ég held að útgáfa hans af A Little More Line sé nokkrum árum yngri en sú með Moonshine. Siffre hefur fengið töluverða uppreisn æru á undangengnum áratug; Fatboy Slim, Eminem og Kanye West hafa allir samplað búta úr lögum hans inn í tónlist sína.)

9. febrúar 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Prefabbarnir standa enn fyrir sínu

Þankar dagsins:
 

Some things hurt more, much more, than cars and girls.

-Paddy McAloon, úr Cars and Girls með Prefab Sprout (lag sem var ádeila á bílasöngva Springsteen).

 

—–

Tónlist dagsins: Adolescence með Prefab Sprout.

(Af feiknagóðri plötu frá síðasta ári, Crimson / Red. Meðal 100 eftirlætisplatna allra tíma hjá mér er Steve McQueen – (eða Two Wheels Good, eins og hún hét í Ameríkunni) með Prefab Sprout. Hvergi var snöggan blett að finna þar; lagasmíðar, textar og útsetningar í gæðaflokki. Sérstaklega var fyrri hliðin, eins og það hét á gamla góða vinylnum, höggþétt. Paddy McAloon, forsprakki PS, hafði einstakt lag á að hæfa í hjartastað - “The Last of the Great Romantics”, eins og hann kallaði sig í lagi frá 2009. Setningar eins og “I´m a simple slave of appetite”, “When love breaks down, the things you do to stop the truth from hurting you”, “Life´s not complete ´til your heart missed a * * beat”, “Some things hurt more much more than cars and girls” - þær söngla í kollinum ævilangt. McAloon hefur líka sýnt að hann er lagasmiður í fremstu röð og það birtir alltaf yfir, þegar lög hans eru flutt. Enskurinn kallaði tónlist hans sophisti-pop og víst á það við, því að hún er jafnt fáguð í flutningi sem að innihaldi. Svo voru McAloon, Wendy Smith og Prefabbarnir bara svo fallegt fólk, tónlistarlega og að flestu öðru leyti. Þau fegruðu lífið í víðtækasta skilningi.

En mikið vatn hefur runnið til sjávar. McAloon er orðinn síðskeggur og gráskeggur, sem gæti sótt um hjá ZZ Top eða verið litli bróðir Simon Spies. Prefab Sprout er ekki lengur starfandi sem hljómsveit, heldur eins manns prójekt, sem gerir út frá heimabæ forsprakkans, Durham á Englandi (sem Roger Whittaker söng svo fallega um hér um árið). McAloon hefur gefið út nokkrar plötur á undanförnum árum, þar af eina óhemju metnaðargjarna og djúpþenkjandi undir eigin nafni, sem hét því sérstaka nafni I Trawl the Megaherz (2003) og spratt upp úr því að tónlistarmaðurinn gekk í gegnum erfiðleika í einkalífi, sára lífsreynslu og skilnað, auk þess sem hann varð blindur vegna sjúkdóms og missti af sömu sökum drjúga hluta heyrnar. Hann endurheimti hvoru tveggja að hluta, sjón og heyrn, en gengur í dag með sólgleraugu öllu jöfnu og er þjakaður af eyrnasuði (tintinnus). Hin gullfallega tónlist Megaherz er ólík öllu öðru PS-efni, því að hún er að stórum hluta instrúmental og ætti jafnvel helst að heita An Englishman in Paris, með vísun í Gershwin og Porter og Berlin, með gegnumgangandi strengjastefi, döprum trompettum og vælandi klarinettum – þetta er kvikmyndatónlist fyrir ljúfsára kvikmynd sem aldrei var gerð. Hún hefur að geyma ógleymanlega og óendanlega tregafulla setningu, sem móðir segir barni sínu: “Your daddy loves you very much. He just doesn´t want to live with us anymore.” Annað ágætt verk McAloon, undir PS-nafninu, er Let´s Change the World with Music, gamlar upptökur sem hann gaf út 2009 af því að útgáfufyrirtækið hafði hafnað þeim næstum 20 árum fyrr. Platan sú er ein samfelld ástarjátning til tónlistar og hefur annað eins varla heyrst síðan John Miles söng Music í kringum 1975: “She´s richer than money, bigger than fame,” syngur McAloon meðal annars um tónlistina.

Og í fyrra kom út Crimson / Red, fantagóð plata með næsta nýju efni. Þótt McAloon sé orðinn 56 ára, þá er röddin enn jafn hlý, blæbrigðarík, sjarmerandi og ungleg - nánast óbreytt frá Steve McQueen. Lagasmíðarnar eru bjartar og léttleikandi og sumar standast það besta frá fyrri tíð, eins og Adolescence og Billy. Stundum skortir þó í tónlistina pungsparkið, sem ungir listamenn einir geta gefið frá sér. Og hér vantar álfarykið, sem Wendy Smith stráði yfir gömlu lögin – hún er væntanlega orðin ráðsett móðir einhvers staðar úti í heimi; kannski amma? Þá leikur McAloon á öll hljóðfæri sjálfur á nýju plötunni, og þótt það sé listavel gert, þá hefði hann mátt nota alvöru strengjasveit (eins og fyrir 4 árum á “Last of the Great Romantics”) í staðinn fyrir plast-symfoníu úr svuntuþeysum. Einhver benti á að Paddy McAloon virðist algjörlega ósnortinn af öllu, sem bæst hefur við tónlistarsenuna frá 1985, en ég tel það honum til hróss frekar en lasts. Crimson / Red hefur fengið frábæra dóma í útlandinu og sumir poppskríbentar setja hana með bestu skífum síðasta árs.

Annars viðurkenni ég strax að ég er vart dómbær á bestu plötu ársins, því að ég hlustaði svo lítið á nýtt efni 2013. Besta platan, sem ég heyrði, er English Electric pt. 2 með Big Big Train, sem eru ótvírætt uppgötvun ársins fyrir mig. Þá eru akústískar sólóplötur Roddy Frame frá seinni árum gífurleg viðbót við tónlistarflóru mína, einkum Surf, og nokkurra ára gamalt tvöfalt albúm með Francis Dunnery, Gulley Flats Boys. Þá er The Graceless Age með John Murry fantagóð og svo er ég dálítið skotinn í fyrri sólóplötu Jake Bugg, Jake Bugg, en aðeins síður af seinni plötunni frá honum, sem kom út árið 2013 og heitir því lítt frumlega nafni Shangri-La. Einhver kallaði Bugg “Justin Bieber verkamannsins” og þótti mér það fyndið. Svo kynntist ég ofangreindu Megaherz McAloons árið 2013 – ógleymanlegt verk, intróspektívt og draumkennt og zen-búddískt. Tónlist fyrir stjörnuglopa, eins og einhver kallaði það.)

18. janúar 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Núna er stríðið búið

Tónlist dagsins:

Now That the War is Over með Willie Nile.

(Einn af mögnuðustu stríðsádeilusöngvum seinni ára. Innniheldur líklega ein 15 erindi eða svo, oft með hárbeittri ádeilu:

Now that the war is over, Mickey don´t laugh so hard

Now that the war is over, he´s constantly on guard

He saw a village burning up, a little baby charred

Now that the war is over, Mickey don´t laugh so hard

Now that the war is over, Sally don´t have no man

Now that the war is over, he´s buried in Pakistan

He went to war at twenty-four to fight for Uncle Sam,

Now that the war is over, Sally don´t have no man

Now that the war is over, Bobby don´t have no leg

Now that the war is over, he sits on streets to beg

He doesn´t play football any more and drinks beer by the keg

Now that the war is over, Bobby don´t have no leg
–—

Þankar dagsins:

Ef við eyðum ekki styrjöldum munu styrjaldir eyða okkur.

-H.G. Wells

22. desember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Regnið í Chimacum

Tónlist dagsins:

Chimacum Rain með Lindu Perhacs.

(Linda er einn af týndu listamönnunum, sem hafa verið enduruppgötvaðir. Árið 1970 gaf hún út frábæra plötu, sem heitir Parallelograms, en þar sem að platan seldist ekki neitt varð ekkert framhald á ferlinum og Linda starfaði lengstan hluta ævinnar sem klinka hjá tannlækni. Á Paralellograms er hún eins og þverskurður flestra bandarískra söngkvenna sins tíma. Stundum syngur hún eins og Joni Mitchell, stundum eins og Joan Baez, stundum eins og Judy Collins, stundum eins og Laura Nyro. Í hinu gullfallega Chimacum Rain er hún jafn viðkvæm og Janis Ian; í öðru lagi, Delicious, minnir hún á Dory Previn. Þessi plata átti meira skilið en að gleymast.)

—–

Þankar dagsins:

Kjóll þjónar engum tilgangi nema hann blási mönnum í brjóst lönguninni til að afklæða konu honum.

-Francoise Sagan. (Nú eru liðin 38 ár síðan ég las Bonjour Tristesse.)

17. desember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Willie karlinn Nile

Tónlist dagsins:

The Streets of New York með Willie Nile. (Býsna flottur í rólegu lögunum, hann Willie, en líka býsna flatur í þeim rokkaðri.)

—–

Þankar dagsins:

“Ekki er nú öll vitleysan eins”, sagði vinur minn einn í vikunni. ”Á vissum tímapunkti býst ég við að allar konur geti verið möguleg ógn við karla, frá mínum bæjardyrum séð, af því það er engin leið fyrir karlmenn að reikna út hver þeirra gæti logið og hverri er treystandi. Á vissum tímapunkti gæti mögulega hvaða kona sem er ákært mig tilhæfulaust fyrir nauðgun.”

6. desember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

SA

Hugleiðing dagsins:

Ég hef áður bent á að SA stendur fyrir Sturm Abteilung.

—–

Tónlist dagsins:

Indian Reservation með Don Fardon.

(Heyrði lagið í dag og það yljaði um hjartarætur. Þetta átti maður nú á 45 snúninga plötu í den.)

24. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Meira af Ochs

Þankar dagsins:

Only the dead are forgiven.

-Phil Ochs (og þar með er honum fyrirgefið. Textar hans eru stundum eins og grískir harmleikir, morandi í slíkum gullkornum.)

—-

Tónlist dagsins:

The Doll House með Phil Ochs.

(Af Rehearsals for Retirement frá 1969. Með tilvísun til The Valley of the Dolls eftir Jaqueline Susann, held ég í fyrstu setningunni, en lagið fjallar annars um heimsókn í hóruhús. Í öðru viðlaginu gerir Ochs stólpagrín að Dylan með því að syngja paródískt með rödd hans, á svipaðan hátt og Zappa lét Adrian Belew syngja á Sheik Yerbouti í laginu Flakes. Ochs og Dylan höfðu áður verið ágætir vinir, en slest hafði upp á vinskapinn þegar þarna var komið - seinna sættust þeir hálfum sáttum. The Doll House er gullfallegt lag, ekki hvað síst fyrir útsetninguna og seiðandi píanóleik Lincoln Mayorga, sem fylgdi Ochs þessi árin. Ég hef kynnt mér betur feril hins makalausa Ochs að undanförnu og sýnist mega skipta honum í þrennt: a) Trúbador-árin 1962-66, en þá var hann skemmtilegri, dýpri, hnyttnari og vægðarlausari en Dylan; ekki síst frábær á sviði og fellur þar í flokk með Lenny Bruce, Tom Lehrer og Harry Chapin, allt fyrsta flokks þjóðfélagsrýnendur; b) Barokk-kammertónlistarárin 1967-70, sem eru mitt uppáhald, og c) Kántrí/rokk/-abillí árin 1970-76, sem eru ekki alveg minn tebolli tónlistarlega, þótt textarnir séu alltaf framúrskarandi. Er til háðskari og naprari texti en Here´s to the State of Mississippi? Er til vægðarlausari sjálfskoðun en Chords of Fame? Um Ochs segir allmusic.com í fyrirsögn ”(He) wrote the most sincere, humane material of his day” og ég tek undir það. Og svo hengdi þessi snillingur sig 1976 - máske í Chords of Fame? Fyrir utan Dylan og Lennon þekkti Ochs Victor Jara og Salvador Allende. Hann lét sig dreyma um að verða Presley og Guevara runninn í einn mann. Mótsögn? Ekki í tilfelli Phil Ochs. Og hvað er þetta eiginlega með flinka klarinettista, sem fara að slá á gígjuna? Nick Drake, Duncan Browne og Phil Ochs voru allir framúrskarandi í klarinettuleik á unglingsaldri - og verða meðal fingrafimustu manna á gítarinn.)

21. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Ochs

Tilvitnun dagsins:

Hvernig stendur á því að í hvert skipti, sem ég heyri tónlist sem ég kann ekki að meta, þá er hún eftir Villa-Lobos?

-Stravinskí.

—-

Tónlist dagsins:

I’ve Had Her með Phil Ochs.

(Það er ekki langt síðan ég fór að hlusta á Ochs - ég hafði alltaf lifað í þeim misskilningi að hann væri hreinni trúbadúr, talið hann líkan Dylan á yngsta skeiði. En í reynd er hann meira eins og Don McLean og Joan Baez runnin saman í eina persónu, oft með spegilsléttum strengjum meðfylgjandi. Róttækur, en ekki endilega á hefðbundinn hátt; gamansamur og gerir iðullega grín af sjálfum sér og kampavínssósíalisma menntamanna - ég er viss um að Leonard Cohen hefur hlustað á The Party með Ochs áður en hann samdi Field Commander Cohen. Að sama skapi held ég að McLean hafi hlustað rækilega á Ochs (t.d. When in Rome), áður en hann samdi American Pie; sex til átta mínútur virðist normið frekar en hitt í tímalengd á lögum Ochs. Sum lög Ochs, eins og t.d. ofangreint I’ve Had Her, eru bara einfaldlega gullfalleg, ekki hvað síst út af hinni yfirgengilegu hljómsveitarútsetningu. Barokk-þjóðlagatónlist er hugtak sem á við um ýmislegt sem Ochs gerði á árunum 1967-70. Samt eru veikleikar; annars vegar röddin, sem er frekar grunn og býr ekki yfir miklum styrk, þótt hún hafi fallegt víbrató (sem söngvarinn á til að ofnota) og hins vegar eru lagasmíðarnar stundum full-einfaldar, með stuttum lagabút margendurteknum, en margbreytileiki í hljómsveitarútsetningum getur ekki alltaf bjargað einhæfni í lagasmíð. Textarnir eru samt undantekningarlítið frábærir.)

1. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Ostur og laukur

Tónlit dagsins:

Cheese and Onions með The Rutles.

(Að undanförnu hef ég horft aftur á tvær bestu mockumentary-myndir rokksögunnar. Sú fyrri fjallar um The Rutles og heitir reyndar All You Need is Cash. Hana gerðu Eric Idle og Neil Innes árið 1978 og fjallar hún um eins konar hliðarsjálf Bítlanna, á svipaðan hátt og Life of Brian fjallar um hliðarsjálf Jesú. Innes semur alla hina stórkostlegu tónlist myndarinnar, sem er byggð á hrúgu af bítlastefum, og textarnir og útsetningarnar eru fullkomlega í stíl. Jafnvel er stælt Macigal Mystery Tour og teiknimyndin Yellow Submarine. Innes leikur John Lennon-týpuna Ron Nasty, en Idle leikur Paul McCartney-týpuna Dirk McQuigley. Öll stæling er meistaraleg, en meðal annarra, sem fram koma eru Mick Jagger, George Harrison, Paul Simon, Bianca Jagger, Ron Wood, Michael Palin, Bill Murray og John Belushi. Sjálfur eignaðist ég plötu með tónlist úr myndinni í kringum 1980 og hef spilað mikið síðan. Þegar Bítlarnir gáfu út Anthology í kringum 1995, gáfu The Rutles út Archeology. Um það leyti áttu báðar hljómsveitir sammerkt að hafa misst einn meðlim. Þess má geta að í Rutles-myndinni leika allir leikararnir á hljóðfæri sín nema Eric Idle, þótt hann sé örvhentur að sveifla um McCartney-ískum Höfner bassa. Gæðastöff!)

—–

Ummæli dagsins:

The Rutles eru stærri en Rod.

-Ron Nasty. (Nasty er tilbúni John Lennon-karakterinn úr ofangreindri Rutles-parodíu á Bítlana. Sem kunnugt er olli Lennon miklu írafári í kringum 1967 þegar hann lét svo um mælt: “The Beatles are bigger than Jesus.” Í Rutles-myndinni segir Ron Nasty ofangreind orð við heyrnarskertan blaðamann, sem setur þau á prent sem “The Rutles claim to be bigger than God” og veldur hneykslan og plötubrennum fyrir misskilning, en Ron Nasty var bara að visa til þess að Rutles væru enn sem komið var vinsælli en Rod Stewart, enda mörg ár í að sá skoskí viskíraddarraulari næði einhverri frægð.)

5. október 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Heitt súkkulaði

Tónlist dagsins:

I´ll Put You Together Again með Hot Chocolate.

(Hot Chocolate var býsna merkileg hljómsveit á sínum tíma og í töluverðu uppáhaldi hjá mér, einkum fyrir lögin Brother Louie og Emma, hvoru tveggja frábærar lagasmíðar með hugvekjandi textum og hugvitssömum útsetningum. Hot Chocolate var ekki síst merkileg vegna þess að hljómsveitin var blönduð hvítum og svörtum, og laut forystu blökkumannsins, lagasmiðsins og söngvarans Errol Brown. Ég held að eingöngu The Equals (Baby Come Back o.fl.) hafi verið hliðstæð hljómsveit fyrri til en Hot Chocolate. Seinna átti hljómsveitin, með Brown við stýrið, eftir að sökkva býsna djúpt í diskó-fenið með lögum eins og You Sexy Thing og Disco Queen, og þá hætti ég að fylgjast með þeim. Ofangreint lag, I´ll Put You Together Again, rambaði ég á af tilviljun, þegar ég var eitthvað að hræra í iPod-inum mínum. Tónsmíðin og útsetningin framan af minna helst á þann erki-Englending Clifford T. Ward, nema hvað rödddin er hin karkakteristíska Errol Brown-rödd, og svo kemur frábær gospel-millikafli, en með strengjaundirleik (!), sem ég held að sé næsta sjaldgæft í gospeli).

—–

Þankar dagsins:

Ef Botticelli væri á lífi í dag, þá væri hann að vinna hjá tískutímaritinu Vogue.

-Peter Ustinov.

1. september 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli