Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

Lífið fyrir orðan

27. september 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Ríkrastjórn

Þankar dagsins:

Auk þess legg ég til að lagt verði niður orðið ríkisstjórn og í staðinn tekið upp ríkrastjórn.

—-

Tónlist dagsins:

Music in Dreamland með Be-Bop Deluxe.

(Það er unun á að hlýða hinn frábæra og melódíska og ljóðræna gítarleik Bill Nelson, auk þess sem hann er frábærlega kontrapúntal. Svo er þetta bara svo skemmtilegt lag. Og sérhvert lag með BBD er kennslustund í gítarleik.)

11. september 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Meira um Mr. Big (UK)

Tónlist dagsins: Zambia með Mr. Big

(Aðdáun mín á bresku sveitinni Mr. Big, sem var upp á sitt besta 1975-78, eykst með hverjum degi. Þetta er kristaltært popp, en svo sérstakt að það fellur hvergi í flokk. Skemmtilegasta tónlist sem ég hef heyrt í mörg ár. Að undanförnu hef ég hlustað helst á plötuna Sweet Silence með þeim, frá árinu 1975. Þetta er ávanabindandi skemmtun. Eins og að blanda saman Sparks, 10CC, Styx, Slade, Sweet, Bebop Deluxe, Queen og Yes og skvetta vænum slumpi af grjóthörðu rokki yfir. Og á þessari plötu nýtur söngvarinn Dicken sín frámunalega vel. Gítarleikur hans er líka einstakur - og minnir stundum á Brian May. Annars er allur tónlistarflutningur hljómsveitarinnar lýtalaus. Prog-rokk, ballöður, leikhústónlist, cockney-slagarar, reggí/backbeat - bara allskonar. Sum lögin eru beinlínis tilraunakennd, minna jafnvel á Deep Purple eða Uriah Heep. Og Dicken getur sungið sig ráman eins og Noddy Holder í Slade. Það var víst pönkið sem drap Mr. Big. Lagið Zambia er annars helst eins og japanskt popplag. Og öll lög þessarar hljómsveitar þróast í aðra átt en maður reiknar með í byrjun; sérhvert popplag verður flókin tónsmíð, sérhvert lag sem byrjar leiðinlega verður skemmtilegt. Þær tvær plötur, sem ég hef heyrt með þessari hljómsveit eru báðar upp á 9 af 10 í einkunn.)

Þankar dagsins:

Why do they call it Rush Hour if nothing moves?

-Robin Williams.

4. september 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Gæludýr Pútíns

Tónlist dagsins:

Pictures of you með The Last Goodnight.

(Ég veit ekkert um þetta lag eða hljómsveitina, en þetta er skemmtilega ávanabindandi.)

—-

Þankar dagsins:

Auk þess legg ég til að embættið forseti lýðveldisins verði lagt niður og í staðinn tekinn upp titillinn gæludýr Pútíns.

11. ágúst 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Gleymda poppstjarnan Dicken

Tónlist dagsins:

 

Photographic Smile með Mr. Big (UK)

(Mr. Big var bresk hljómsveit sem starfaði á 8. áratugnum og ber ekki að rugla saman við samnefnda hljómsveit frá Bandaríkjunum, sem birtist á sjónarsviðinu áratug síðar. Hin enska Mr. Big kom frá Oxford og laut forystu náunga, sem var kallaður Dicken, lágvaxinn og heldur ófríður stubbur, en viðkunnanlegur og frámuna hæfileikaríkur sem söngvari og gítarleikari, og söngvasmiður í góðu meðallagi. Að þessu leytinu til minnir hann á Bill Nelson úr Bebop Deluxe, nema hvað Nelson hafði ríkari listrænan metnað. Mr. Big fór hins vegar í allar áttir undir stjórn Dicken og skammaðist sín ekkert fyrir það. Þetta er eina hljómsveitin, sem ég veit til að hafi verið líkt bæði við Abba og Yes. Dæmigert lag með Mr. Big gat byrjað eins og eitthvað með Brotherhood of Man og endað eins og Uriah Heep. Einnig má líta á hljómsveitina sem undanfara iðnaðarpoppsins upp úr 1980. Dicken hafði fáránlega breitt og áreynslulaust raddsvið; einhver vildi líkja honum við Rod Stewart á helíum. Raddsviðið fór svo hátt að minnti stundum á söngvara úr Yes, Rush, Pavlov´s Dog eða Styx, en Dicken gat einnig farið miklu lengra niður með röddina, svo að hann hljómaði ekki alltaf eins og einhver héldi um hreðjar honum. Mr. Big hitaði upp fyrir stórhljómsveitir eins og Mott the Hoople, Bebop Deluxe og Queen; þeir léku sem upphitunarhljómsveit fyrir herra Mercury og félaga á A Night at the Opera-túrnum 1975 og Dicken hefur lýst því að ein merkilegri upplifun hans um ævina hafi verið þegar hann var á hótelherbergi með þeim Queen-liðum og fréttir bárust af því að þeir hefðu náð fyrsta sæti á bresku vinsældarlistunum í fyrsta sinn með Bohemian Rhapsody. Og vissulega má greina sterk Queen-áhrif hjá Mr. Big, ekki hvað síst í röddun (What Colour is the Wind) og gítarleik. Ofangreint lag, Photographic Smile, sem heyra má á youtube, af hreint frábærri samnefndri plötu, minnir á Sparks á köflum, sem eins konar tóneikahrekkur, en það segir sína sögu að einn þeirra, sem gera athugasemd á youtube hélt að þetta væri með Yes. Næsta lag, Romeo, gæti alveg eins verið með Abba frá Fernando-tímanum og þriðja lagið er með sterkum Queen-áhrifum. Og þrátt fyrir kinnroðalaust poppið vinnur platan stöðugt á og er í miklu uppáhaldi hjá mér nú um stundir. Árið 1978 var Ian Hunter, fyrrum leiðtogi Mott the Hoople, fenginn til að stýra upptökum á Mr. Big plötu og samdi fyrir þá hið dásamlega væmna lag Senora (sjá youtube). Hunter gekk svo langt að lýsa því yfir að Dicken væri svar Englendinga við Bruce Springsteen, sem er nú kannski fullmikið tekið upp í sig. En EMI-útgáfan hætti við að gefa plötuna, Seppuku, út og Mr. Big hættu sem hljómsveit, þótt Dicken ætti eftir að leiða aðra stórgóða hljómsveit, Broken Home.)

 

––

Þankar dagsins:

Mikka Mús- tákn á íslenska þúsundkallinum? Er ekki fokið í flest skjól þegar menningarvitar þjóðarinnar virðast ekki þekkja klassískt þrílauf (e. trefoil) í kirkjuarkítektúr miðalda?

6. ágúst 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Óánægja mín með skattinn

Tónlist dagsins:

Tónverkið Tales from Topographic Oceans með Yes.

(Á sinni tíð, árið 1972, taldi ég Close to the Edge með Yes hápunkt tónlistar og að TFTO tveimur arum síðar hefði verið stórt skref aftur á bak. Ég er enn þeirrar skoðunar, en það breytir því ekki að TFTO er metnaðargjarnt verk með mörg áheyrileg stef, enda 80 mínútur að lengd. Hef ég lagst í að hlusta á það að nýju. Það sem stendur líklega upp úr er frumleikinn í gítarspili Steve Howe, en mér heyrist Dave Longstreth í Dirty Projectors hafa orðið fyrir miklum áhrifum sem birtast helst á hinni stórgóðu Bitte Orca (2009). Auk þess heyrist mér Peter Hammill hafi “fengið lánað” meginstefið af TFTO í lag sitt Leave This House af hinni annars sérstæðu og stórgóðu plötu The Fall of the House of Usher (1991). En, semsagt, Tales from Topographic Oceans er vel þess virði að leggjast yfir hana.)

–—

Þankar dagsins:

Að gefnu tilefni, út frá fréttum síðustu viku, vil ég taka fram að ég á (því miður) ekki eyri af þeim 28,5 milljörðum króna, sem Íslendingar eru sagðir eiga í aflandsfélögum á Tortóla.

Ég vil bæta við að það olli mér ómældum vonbrigðum að vera ekki í hópi 30 hæstu skattgreiðenda við birtingu álagningarskrár ríkisskattstjóra.

1. ágúst 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

The Tremeloes

Tónlist dagsins:

Loving you (is sweeter than ever) með Tremeloes.

(Árið 1967 var gott ár í tónlist. Þá komu út Sgt. Pepper´s með Bítlunum, sem ég eignaðist strax þá, og Forever Changes með Love, sem ég eignaðist ekki fyrr en mörgum árum síðar. Fyrir skömmu barst mér í hendur eintak af plötu, sem ég eignaðist einmitt umrætt ár. Hún hét Here Come the Tremeloes og varð óðara uppáhaldsplata mín. Á þeim tíma var ég sannfærður um að The Tremeloes yrðu frægari en Bítlarnir. Hverjir voru The Tremeloes? Jú, hljómsveitin hafði verið stofnuð fyrir 1960 (eins og elsta útgáfa Bítlanna) og lék undir og raddaði með Brian Poole – er til sá Íslendingur sem ekki þekkir Silence is Golden? Eftir að Poole dömpaði The Tremeloes (eða þeir honum), reyndu þeir fyrir sér upp á eigin spýtur og urðu í reynd frábær hljómsveit. Þeir spiluðu djinglí-djanglí sólskinspopp með metnaðarfullum útsetningum, frábærum raddsetningum og stundum framsæknum eða tilraunakenndum stefjum. Framan af sungu þeir lög annarra, eins og Bítlarnir, en urðu með tímanum áræðnari við eigin lagasmíðar og tókst oft býsna vel upp, með lagasmíðatvíeykið Blakely og Hawkes. Á Here Come the Tremeloes er ekki að finna eitt einasta veikt lag hvað varðar útsetningu og flutning, og ég held að í þeim skilningi eigi platan heima meðal 100 bestu í safni mínu. Ofangreint lag (þar sem hinn ungi Stevie Wonder er meðhöfundur) hafði verið flutt af Four Tops, en the Tremeloes sóttu ýmis áhrif til Ameríku. Stundum gátu þeir sungið og raddað eins og Frankie Valli/The Four Seasons (t.d. lagið Run Baby Run). Á Here Come the Tremeloes tóku þeir líka splunkunýtt lag eftir Paul McCartney (þótt skráð sé á Lennon og McCartney), Good Day Sunshine. Þá held ég að ég hafi fyrst á ævinni rekist á nafn ungs lagasmiðs á þessari plötu; það var Cat Stevens, en platan hefst einmitt á lagi hans, Here Comes My Baby, stuðlagi sem gefur lítil fyrirheit um djúpþenkjandi listamann. Enn eitt lagið á plötunni átti eftir að verða smellur, Even the Bad Times are Good, og yfir allri plötunni hvíldi léttleiki, leikgleði og alvöruleysi. Á næstu árum áttu The Tremeloes marga smelli, t.d. Helule Helule (sem að ég hef alltaf talið upphaf heimstónlistar), Call me Number One og Me and My Life. Árið 1970 urðu þeim hins vegar á illileg mistök. Þá bauð lagahöfundur að nafni Jeff Christie þeim nýsamið lag sitt, Yellow River, og tóku þeir það upp, en ákváðu síðan að gefa það ekki út þar sem það væri of poppað og samræmdist ekki listrænum viðmiðum sem þeir höfðu sett sér. Þá tók Christie sig til, notaði undirleik Tremeloes við lagið, en þurrkaði söng þeirra út og gaf út. Lagið varð víðtækur smellur, ofboðslega grípandi og í margra augum baráttusöngur gegn Víetnam-stríðinu; textinn fjallar um ungan mann sem snýr heim til Gulár guðslifandi feginn að sleppa heill á húfi úr stríði. Ég held að flestir þekki lagið strax á upphafstónum þess. Og hið kaldhæðnislega er að sums staðar var spilun lagsins í útvarpi bönnuð sem and-stríðsáróður, en á þeim árum var það einmitt sannindamerki alls listræns! Hvað um það, á þessum árum kom Badfinger fram og var talin æði listræn hljómsveit, með Ham og Evans sem lagateymi, og Big Star einnig, með Alex Chilton. En eftir sátu The Tremeloes úti í kuldanum og urðu fljótt dæmdir og léttvægir fundnir tónlistarlega, grafnir og ölllum gleymdir. En ég endurtek: Here Come the Tremeloes er sennilega í hópi 100 bestu platna sem ég hef heyrt. Ef fólk kann að meta gleðina og léttleikann á Odessey and Oracle með Zombies, þá ætti þetta líka að vera plata sem hlustandi er á).

–—

Þankar dagsins:

Maður er það sem maður les.

-Joseph Brodsky

22. júlí 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Vinegar Joe

Tónlist dagsins:

Forgive Us með Vinegar Joe.

(Frá þeim tíma þegar Robert Palmer var bráðungur og fríður. Síðan gerðist hann alþjóðleg ofurstjarna og blandaði helst geði við súpermódelin á 9. áratug liðinnar aldar, svipað og Brian Ferry og Duran Duran-liðar – og dó frekar ungur, rúmlega fimmtugur. Vinegar Joe er stórlega vanmetin hljómsveit, starfaði eingöngu 1971-73, gaf út þrjár prýðisgóðar plötur og skartaði – sem var einsdæmi á þeim tíma – tveimur aðalsöngvurum, einum karli og einni konu. Og gellan var ekki í lakari kantinum, sjálf Elkie Brooks, súperflott með súperrödd, eins og Palmer. Í ofangreindu lagi syngur Palmer þó meginrödd og ég fæ gæsahúð af söng hans. Annað lag litlu síðra er Fine Thing. Annars mætti helst lýsa tónlist Vinegar Joe sem honky-tonk hvítu blús-rokki. Og ég kann í reynd betur að meta það í dag en í gamla daga.)


Þankar dagsins:

Breiðið út ást og skilning. Með valdi, ef þörf krefur.
-eignað (vafasamt) Trotskí í bók eftir Lee Child. En þótt þessi tilvitnun finnist hvergi í verkum Trotskís er hún alfarið í anda hugsunar hans.

21. maí 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Hin lesandi stétt

Þankar dagsins:

Fyrir hina ómenntuðu er A bara þrjú strik.

-A.A. Milne.

(Ritað í tilefni af því að frá og með deginum í dag skilgreini ég mig ekki bara sem hluta af láglauna-millistétt, heldur einnig sem hluta af hinni ört útdeyjandi lesandi stétt.)

—–

Tónlist dagsins:

By My Side úr söngleiknum Godspell.

(Fátt hlusta ég meira á þessa dagana. Röddun gerist varla fegurri. Katie Hanley, sem syngur hér aðalröddina, varð ódauðleg í kvikmyndinni, þegar hún söng þetta. Godspell er söngleikur gæddur þeim kosti að þar er ekki eitt einasta veikt eða leiðinlegt lag. Hann var saminn um svipað leyti og Jesus Christ Superstar, af tilviljun voru menn beggja vegna Atlantsála að fast við sama viðfangsefni. Annars minnir Godspell töluvert á Hárið; í kvikmyndaútgáfunnni klæðast “postularnir” hippaklæðum, mála sig eins og trúðar og Jesús er í Súperman-bol. Í kvikmyndaútgáfunni af Godspell er New York í aðalhlutverki og virðist mannlaus lengst af myndarinnar; eitt atriðið er tekið á þaki annars Tvíburaturnsins og hefur því sögulega þýðingu. Kanadamaðurinn Victor Gerber, sem söng Jesús í bíómyndinni, er andlit sem allir þekkja; lék m.a. föður Jennifer Garner í Alias. Í Meet the Fockers er atriði, þar sem Ben Stiller á að fara með borðbæn, kann ekki neitt úr Biblíunni og þylur í staðinn upp frægasta dægurlagatextann úr Godspell, þann sem er síendurtekinn við lagið Day By Day.)

13. apríl 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Atónal blús

Tónlist dagsins: Svartur köttur og pardus bleik með Atónal blús.

(Í seinni tíð kemur ný tónlist mér æ sjaldnar á óvart. En þessi gerði það. Í gær var ég úti að aka sem endranær og heyrði þetta lag. Staldraði við, var svo heppinn að vera á ljósum, hefði ella ekið út í kant. Atónal blús heyrist mér mögulega vera það efnilegasta og frumlegasta sem komið hefur fram á íslensku tónlistarsenunni um árabil, jafnvel áraraðir. Frábær flutningur, hljómar eins og tónlistarmennirnir séu allir hálærðir og viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Stendur mörgum klössum ofar krúttkynslóðar-indí-músikkinni, sem flestir hafa fengið nóg af. Skemmtilegur þjóðlagablær yfir þessu lagi, brotinn taktur og sérlega flottur gítarleikur. Annað lag, Höfuðsynd, af sömu plötu, er að finna á jútjúbinu, mjög lofandi, en töluvert meira rokkaðra. Skemmtileg notkun á hálftónum þar í laglínunni, gefur henna dálítið austrænan blæ, eins og ef Zeppelin færi að spila indverska tónlist. Eins undarlegt og það kann að hljóma, þá ber þessi hljómsveit nafn með rentu. Textarnir sýnast mér þó mættu vera betri eða innihaldsríkari. En þrátt fyrir það, þá er þessi hljómsveit kannski framtíð íslenskrar tónlistar.)

16. mars 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli