Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

The Tremeloes

Tónlist dagsins:

Loving you (is sweeter than ever) með Tremeloes.

(Árið 1967 var gott ár í tónlist. Þá komu út Sgt. Pepper´s með Bítlunum, sem ég eignaðist strax þá, og Forever Changes með Love, sem ég eignaðist ekki fyrr en mörgum árum síðar. Fyrir skömmu barst mér í hendur eintak af plötu, sem ég eignaðist einmitt umrætt ár. Hún hét Here Come the Tremeloes og varð óðara uppáhaldsplata mín. Á þeim tíma var ég sannfærður um að The Tremeloes yrðu frægari en Bítlarnir. Hverjir voru The Tremeloes? Jú, hljómsveitin hafði verið stofnuð fyrir 1960 (eins og elsta útgáfa Bítlanna) og lék undir og raddaði með Brian Poole – er til sá Íslendingur sem ekki þekkir Silence is Golden? Eftir að Poole dömpaði The Tremeloes (eða þeir honum), reyndu þeir fyrir sér upp á eigin spýtur og urðu í reynd frábær hljómsveit. Þeir spiluðu djinglí-djanglí sólskinspopp með metnaðarfullum útsetningum, frábærum raddsetningum og stundum framsæknum eða tilraunakenndum stefjum. Framan af sungu þeir lög annarra, eins og Bítlarnir, en urðu með tímanum áræðnari við eigin lagasmíðar og tókst oft býsna vel upp, með lagasmíðatvíeykið Blakely og Hawkes. Á Here Come the Tremeloes er ekki að finna eitt einasta veikt lag hvað varðar útsetningu og flutning, og ég held að í þeim skilningi eigi platan heima meðal 100 bestu í safni mínu. Ofangreint lag (þar sem hinn ungi Stevie Wonder er meðhöfundur) hafði verið flutt af Four Tops, en the Tremeloes sóttu ýmis áhrif til Ameríku. Stundum gátu þeir sungið og raddað eins og Frankie Valli/The Four Seasons (t.d. lagið Run Baby Run). Á Here Come the Tremeloes tóku þeir líka splunkunýtt lag eftir Paul McCartney (þótt skráð sé á Lennon og McCartney), Good Day Sunshine. Þá held ég að ég hafi fyrst á ævinni rekist á nafn ungs lagasmiðs á þessari plötu; það var Cat Stevens, en platan hefst einmitt á lagi hans, Here Comes My Baby, stuðlagi sem gefur lítil fyrirheit um djúpþenkjandi listamann. Enn eitt lagið á plötunni átti eftir að verða smellur, Even the Bad Times are Good, og yfir allri plötunni hvíldi léttleiki, leikgleði og alvöruleysi. Á næstu árum áttu The Tremeloes marga smelli, t.d. Helule Helule (sem að ég hef alltaf talið upphaf heimstónlistar), Call me Number One og Me and My Life. Árið 1970 urðu þeim hins vegar á illileg mistök. Þá bauð lagahöfundur að nafni Jeff Christie þeim nýsamið lag sitt, Yellow River, og tóku þeir það upp, en ákváðu síðan að gefa það ekki út þar sem það væri of poppað og samræmdist ekki listrænum viðmiðum sem þeir höfðu sett sér. Þá tók Christie sig til, notaði undirleik Tremeloes við lagið, en þurrkaði söng þeirra út og gaf út. Lagið varð víðtækur smellur, ofboðslega grípandi og í margra augum baráttusöngur gegn Víetnam-stríðinu; textinn fjallar um ungan mann sem snýr heim til Gulár guðslifandi feginn að sleppa heill á húfi úr stríði. Ég held að flestir þekki lagið strax á upphafstónum þess. Og hið kaldhæðnislega er að sums staðar var spilun lagsins í útvarpi bönnuð sem and-stríðsáróður, en á þeim árum var það einmitt sannindamerki alls listræns! Hvað um það, á þessum árum kom Badfinger fram og var talin æði listræn hljómsveit, með Ham og Evans sem lagateymi, og Big Star einnig, með Alex Chilton. En eftir sátu The Tremeloes úti í kuldanum og urðu fljótt dæmdir og léttvægir fundnir tónlistarlega, grafnir og ölllum gleymdir. En ég endurtek: Here Come the Tremeloes er sennilega í hópi 100 bestu platna sem ég hef heyrt. Ef fólk kann að meta gleðina og léttleikann á Odessey and Oracle með Zombies, þá ætti þetta líka að vera plata sem hlustandi er á).

–—

Þankar dagsins:

Maður er það sem maður les.

-Joseph Brodsky

22. júlí 2014 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli