Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

Gleymda poppstjarnan Dicken

Tónlist dagsins:

 

Photographic Smile með Mr. Big (UK)

(Mr. Big var bresk hljómsveit sem starfaði á 8. áratugnum og ber ekki að rugla saman við samnefnda hljómsveit frá Bandaríkjunum, sem birtist á sjónarsviðinu áratug síðar. Hin enska Mr. Big kom frá Oxford og laut forystu náunga, sem var kallaður Dicken, lágvaxinn og heldur ófríður stubbur, en viðkunnanlegur og frámuna hæfileikaríkur sem söngvari og gítarleikari, og söngvasmiður í góðu meðallagi. Að þessu leytinu til minnir hann á Bill Nelson úr Bebop Deluxe, nema hvað Nelson hafði ríkari listrænan metnað. Mr. Big fór hins vegar í allar áttir undir stjórn Dicken og skammaðist sín ekkert fyrir það. Þetta er eina hljómsveitin, sem ég veit til að hafi verið líkt bæði við Abba og Yes. Dæmigert lag með Mr. Big gat byrjað eins og eitthvað með Brotherhood of Man og endað eins og Uriah Heep. Einnig má líta á hljómsveitina sem undanfara iðnaðarpoppsins upp úr 1980. Dicken hafði fáránlega breitt og áreynslulaust raddsvið; einhver vildi líkja honum við Rod Stewart á helíum. Raddsviðið fór svo hátt að minnti stundum á söngvara úr Yes, Rush, Pavlov´s Dog eða Styx, en Dicken gat einnig farið miklu lengra niður með röddina, svo að hann hljómaði ekki alltaf eins og einhver héldi um hreðjar honum. Mr. Big hitaði upp fyrir stórhljómsveitir eins og Mott the Hoople, Bebop Deluxe og Queen; þeir léku sem upphitunarhljómsveit fyrir herra Mercury og félaga á A Night at the Opera-túrnum 1975 og Dicken hefur lýst því að ein merkilegri upplifun hans um ævina hafi verið þegar hann var á hótelherbergi með þeim Queen-liðum og fréttir bárust af því að þeir hefðu náð fyrsta sæti á bresku vinsældarlistunum í fyrsta sinn með Bohemian Rhapsody. Og vissulega má greina sterk Queen-áhrif hjá Mr. Big, ekki hvað síst í röddun (What Colour is the Wind) og gítarleik. Ofangreint lag, Photographic Smile, sem heyra má á youtube, af hreint frábærri samnefndri plötu, minnir á Sparks á köflum, sem eins konar tóneikahrekkur, en það segir sína sögu að einn þeirra, sem gera athugasemd á youtube hélt að þetta væri með Yes. Næsta lag, Romeo, gæti alveg eins verið með Abba frá Fernando-tímanum og þriðja lagið er með sterkum Queen-áhrifum. Og þrátt fyrir kinnroðalaust poppið vinnur platan stöðugt á og er í miklu uppáhaldi hjá mér nú um stundir. Árið 1978 var Ian Hunter, fyrrum leiðtogi Mott the Hoople, fenginn til að stýra upptökum á Mr. Big plötu og samdi fyrir þá hið dásamlega væmna lag Senora (sjá youtube). Hunter gekk svo langt að lýsa því yfir að Dicken væri svar Englendinga við Bruce Springsteen, sem er nú kannski fullmikið tekið upp í sig. En EMI-útgáfan hætti við að gefa plötuna, Seppuku, út og Mr. Big hættu sem hljómsveit, þótt Dicken ætti eftir að leiða aðra stórgóða hljómsveit, Broken Home.)

 

––

Þankar dagsins:

Mikka Mús- tákn á íslenska þúsundkallinum? Er ekki fokið í flest skjól þegar menningarvitar þjóðarinnar virðast ekki þekkja klassískt þrílauf (e. trefoil) í kirkjuarkítektúr miðalda?

6. ágúst 2014 kl. 15:07 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Engin ummæli

Engin ummæli fram að þessu.

Lokað er fyrir ummæli.