Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

Prefabbarnir standa enn fyrir sínu

Þankar dagsins:
 

Some things hurt more, much more, than cars and girls.

-Paddy McAloon, úr Cars and Girls með Prefab Sprout (lag sem var ádeila á bílasöngva Springsteen).

 

—–

Tónlist dagsins: Adolescence með Prefab Sprout.

(Af feiknagóðri plötu frá síðasta ári, Crimson / Red. Meðal 100 eftirlætisplatna allra tíma hjá mér er Steve McQueen – (eða Two Wheels Good, eins og hún hét í Ameríkunni) með Prefab Sprout. Hvergi var snöggan blett að finna þar; lagasmíðar, textar og útsetningar í gæðaflokki. Sérstaklega var fyrri hliðin, eins og það hét á gamla góða vinylnum, höggþétt. Paddy McAloon, forsprakki PS, hafði einstakt lag á að hæfa í hjartastað - “The Last of the Great Romantics”, eins og hann kallaði sig í lagi frá 2009. Setningar eins og “I´m a simple slave of appetite”, “When love breaks down, the things you do to stop the truth from hurting you”, “Life´s not complete ´til your heart missed a * * beat”, “Some things hurt more much more than cars and girls” - þær söngla í kollinum ævilangt. McAloon hefur líka sýnt að hann er lagasmiður í fremstu röð og það birtir alltaf yfir, þegar lög hans eru flutt. Enskurinn kallaði tónlist hans sophisti-pop og víst á það við, því að hún er jafnt fáguð í flutningi sem að innihaldi. Svo voru McAloon, Wendy Smith og Prefabbarnir bara svo fallegt fólk, tónlistarlega og að flestu öðru leyti. Þau fegruðu lífið í víðtækasta skilningi.

En mikið vatn hefur runnið til sjávar. McAloon er orðinn síðskeggur og gráskeggur, sem gæti sótt um hjá ZZ Top eða verið litli bróðir Simon Spies. Prefab Sprout er ekki lengur starfandi sem hljómsveit, heldur eins manns prójekt, sem gerir út frá heimabæ forsprakkans, Durham á Englandi (sem Roger Whittaker söng svo fallega um hér um árið). McAloon hefur gefið út nokkrar plötur á undanförnum árum, þar af eina óhemju metnaðargjarna og djúpþenkjandi undir eigin nafni, sem hét því sérstaka nafni I Trawl the Megaherz (2003) og spratt upp úr því að tónlistarmaðurinn gekk í gegnum erfiðleika í einkalífi, sára lífsreynslu og skilnað, auk þess sem hann varð blindur vegna sjúkdóms og missti af sömu sökum drjúga hluta heyrnar. Hann endurheimti hvoru tveggja að hluta, sjón og heyrn, en gengur í dag með sólgleraugu öllu jöfnu og er þjakaður af eyrnasuði (tintinnus). Hin gullfallega tónlist Megaherz er ólík öllu öðru PS-efni, því að hún er að stórum hluta instrúmental og ætti jafnvel helst að heita An Englishman in Paris, með vísun í Gershwin og Porter og Berlin, með gegnumgangandi strengjastefi, döprum trompettum og vælandi klarinettum – þetta er kvikmyndatónlist fyrir ljúfsára kvikmynd sem aldrei var gerð. Hún hefur að geyma ógleymanlega og óendanlega tregafulla setningu, sem móðir segir barni sínu: “Your daddy loves you very much. He just doesn´t want to live with us anymore.” Annað ágætt verk McAloon, undir PS-nafninu, er Let´s Change the World with Music, gamlar upptökur sem hann gaf út 2009 af því að útgáfufyrirtækið hafði hafnað þeim næstum 20 árum fyrr. Platan sú er ein samfelld ástarjátning til tónlistar og hefur annað eins varla heyrst síðan John Miles söng Music í kringum 1975: “She´s richer than money, bigger than fame,” syngur McAloon meðal annars um tónlistina.

Og í fyrra kom út Crimson / Red, fantagóð plata með næsta nýju efni. Þótt McAloon sé orðinn 56 ára, þá er röddin enn jafn hlý, blæbrigðarík, sjarmerandi og ungleg - nánast óbreytt frá Steve McQueen. Lagasmíðarnar eru bjartar og léttleikandi og sumar standast það besta frá fyrri tíð, eins og Adolescence og Billy. Stundum skortir þó í tónlistina pungsparkið, sem ungir listamenn einir geta gefið frá sér. Og hér vantar álfarykið, sem Wendy Smith stráði yfir gömlu lögin – hún er væntanlega orðin ráðsett móðir einhvers staðar úti í heimi; kannski amma? Þá leikur McAloon á öll hljóðfæri sjálfur á nýju plötunni, og þótt það sé listavel gert, þá hefði hann mátt nota alvöru strengjasveit (eins og fyrir 4 árum á “Last of the Great Romantics”) í staðinn fyrir plast-symfoníu úr svuntuþeysum. Einhver benti á að Paddy McAloon virðist algjörlega ósnortinn af öllu, sem bæst hefur við tónlistarsenuna frá 1985, en ég tel það honum til hróss frekar en lasts. Crimson / Red hefur fengið frábæra dóma í útlandinu og sumir poppskríbentar setja hana með bestu skífum síðasta árs.

Annars viðurkenni ég strax að ég er vart dómbær á bestu plötu ársins, því að ég hlustaði svo lítið á nýtt efni 2013. Besta platan, sem ég heyrði, er English Electric pt. 2 með Big Big Train, sem eru ótvírætt uppgötvun ársins fyrir mig. Þá eru akústískar sólóplötur Roddy Frame frá seinni árum gífurleg viðbót við tónlistarflóru mína, einkum Surf, og nokkurra ára gamalt tvöfalt albúm með Francis Dunnery, Gulley Flats Boys. Þá er The Graceless Age með John Murry fantagóð og svo er ég dálítið skotinn í fyrri sólóplötu Jake Bugg, Jake Bugg, en aðeins síður af seinni plötunni frá honum, sem kom út árið 2013 og heitir því lítt frumlega nafni Shangri-La. Einhver kallaði Bugg “Justin Bieber verkamannsins” og þótti mér það fyndið. Svo kynntist ég ofangreindu Megaherz McAloons árið 2013 – ógleymanlegt verk, intróspektívt og draumkennt og zen-búddískt. Tónlist fyrir stjörnuglopa, eins og einhver kallaði það.)

18. janúar 2014 kl. 20:13 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Engin ummæli

Engin ummæli fram að þessu.

Lokað er fyrir ummæli.