Þankar

Enn eitt Blogg.is bloggið

SA

Hugleiðing dagsins:

Ég hef áður bent á að SA stendur fyrir Sturm Abteilung.

—–

Tónlist dagsins:

Indian Reservation með Don Fardon.

(Heyrði lagið í dag og það yljaði um hjartarætur. Þetta átti maður nú á 45 snúninga plötu í den.)

24. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Meira af Ochs

Þankar dagsins:

Only the dead are forgiven.

-Phil Ochs (og þar með er honum fyrirgefið. Textar hans eru stundum eins og grískir harmleikir, morandi í slíkum gullkornum.)

—-

Tónlist dagsins:

The Doll House með Phil Ochs.

(Af Rehearsals for Retirement frá 1969. Með tilvísun til The Valley of the Dolls eftir Jaqueline Susann, held ég í fyrstu setningunni, en lagið fjallar annars um heimsókn í hóruhús. Í öðru viðlaginu gerir Ochs stólpagrín að Dylan með því að syngja paródískt með rödd hans, á svipaðan hátt og Zappa lét Adrian Belew syngja á Sheik Yerbouti í laginu Flakes. Ochs og Dylan höfðu áður verið ágætir vinir, en slest hafði upp á vinskapinn þegar þarna var komið - seinna sættust þeir hálfum sáttum. The Doll House er gullfallegt lag, ekki hvað síst fyrir útsetninguna og seiðandi píanóleik Lincoln Mayorga, sem fylgdi Ochs þessi árin. Ég hef kynnt mér betur feril hins makalausa Ochs að undanförnu og sýnist mega skipta honum í þrennt: a) Trúbador-árin 1962-66, en þá var hann skemmtilegri, dýpri, hnyttnari og vægðarlausari en Dylan; ekki síst frábær á sviði og fellur þar í flokk með Lenny Bruce, Tom Lehrer og Harry Chapin, allt fyrsta flokks þjóðfélagsrýnendur; b) Barokk-kammertónlistarárin 1967-70, sem eru mitt uppáhald, og c) Kántrí/rokk/-abillí árin 1970-76, sem eru ekki alveg minn tebolli tónlistarlega, þótt textarnir séu alltaf framúrskarandi. Er til háðskari og naprari texti en Here´s to the State of Mississippi? Er til vægðarlausari sjálfskoðun en Chords of Fame? Um Ochs segir allmusic.com í fyrirsögn ”(He) wrote the most sincere, humane material of his day” og ég tek undir það. Og svo hengdi þessi snillingur sig 1976 - máske í Chords of Fame? Fyrir utan Dylan og Lennon þekkti Ochs Victor Jara og Salvador Allende. Hann lét sig dreyma um að verða Presley og Guevara runninn í einn mann. Mótsögn? Ekki í tilfelli Phil Ochs. Og hvað er þetta eiginlega með flinka klarinettista, sem fara að slá á gígjuna? Nick Drake, Duncan Browne og Phil Ochs voru allir framúrskarandi í klarinettuleik á unglingsaldri - og verða meðal fingrafimustu manna á gítarinn.)

21. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli

Ochs

Tilvitnun dagsins:

Hvernig stendur á því að í hvert skipti, sem ég heyri tónlist sem ég kann ekki að meta, þá er hún eftir Villa-Lobos?

-Stravinskí.

—-

Tónlist dagsins:

I’ve Had Her með Phil Ochs.

(Það er ekki langt síðan ég fór að hlusta á Ochs - ég hafði alltaf lifað í þeim misskilningi að hann væri hreinni trúbadúr, talið hann líkan Dylan á yngsta skeiði. En í reynd er hann meira eins og Don McLean og Joan Baez runnin saman í eina persónu, oft með spegilsléttum strengjum meðfylgjandi. Róttækur, en ekki endilega á hefðbundinn hátt; gamansamur og gerir iðullega grín af sjálfum sér og kampavínssósíalisma menntamanna - ég er viss um að Leonard Cohen hefur hlustað á The Party með Ochs áður en hann samdi Field Commander Cohen. Að sama skapi held ég að McLean hafi hlustað rækilega á Ochs (t.d. When in Rome), áður en hann samdi American Pie; sex til átta mínútur virðist normið frekar en hitt í tímalengd á lögum Ochs. Sum lög Ochs, eins og t.d. ofangreint I’ve Had Her, eru bara einfaldlega gullfalleg, ekki hvað síst út af hinni yfirgengilegu hljómsveitarútsetningu. Barokk-þjóðlagatónlist er hugtak sem á við um ýmislegt sem Ochs gerði á árunum 1967-70. Samt eru veikleikar; annars vegar röddin, sem er frekar grunn og býr ekki yfir miklum styrk, þótt hún hafi fallegt víbrató (sem söngvarinn á til að ofnota) og hins vegar eru lagasmíðarnar stundum full-einfaldar, með stuttum lagabút margendurteknum, en margbreytileiki í hljómsveitarútsetningum getur ekki alltaf bjargað einhæfni í lagasmíð. Textarnir eru samt undantekningarlítið frábærir.)

1. nóvember 2013 | helgi | Óflokkað | Engin ummæli